Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hlakkar í Ágústi?

Til skýringar á fyrri orðum sínum um að það hafi hlakkað í varaformanni Samfó vísar Björn.is á viðtal á RÚV. Þar segir Ágúst þetta, þegar fréttamaður rifjar upp 30% markmiðið sem einhver þingmanna flokksins hafði sett fram opinberlega um stærð flokksins, sem ekki náðist.

"Neinei, auðvitað eiga menn að fara varlega í setja sér svona markmið. En árangurinn er ásættanlegur hvað þetta varðar. Við erum með tvöfalt fleiri þingmenn en vinstri grænir og einungis vantar Samfylkinguna tvo þingmenn til að jafnmarga samanlagt og VG, Frjálslyndir og Framsókn hafa. Ríkisstjórnin fær auðvitað skell. Tveir ráðherrar féllu í kosningunum og sá þriðji verður hugsanlega fluttur til vegna útstrikana."

Meira var nú ekki sagt um Björn í þættinum. Þegar hlustað er á viðtalið í heild verður ekki betur séð en að þetta sé sagt í algeru framhjáhlaupi.

Hvað hefur maðurinn eiginlega verið að spá þegar hann slengdi þessari fullyrðingu fram? Ég held maður þurfi að vera mjög grillaður í hausnum til að fullyrða að það hafi hlakkað í Ágústi Ólafi yfir þessu.  


Ráðherralisti - getgáta

Forsætisráðherra: Geir H. Haarde
Utanríkisráðherra: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Fjármálaráðherra: Árni M. Mathiesen
Heilbrigðis- og Tryggingamálaráðherra: Össur Skarphéðinsson
Dómsmálaráðherra: Björn Bjarnason, í að minnsta kosti eitt ár.
Menntamálaráðherra: Björgvin G. Sigurðsson
Sjávarútvegsráðherra: Einar K. Guðfinnsson
Samgöngumálaráðherra: Kristján L. Möller
Félagsmálaráðherra: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir Helgi Hjörvar
Iðnaðar- og Viðskiptamálaráðuneyti: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Landbúnaðarráðherra: Sturla Böðvarsson
Umhverfisráðherra: Ágúst Ólafur Ágústsson

Jóhanna Sigurðardóttir verður forseti Alþingis.  


Um pólitískt umboð Bóbó

Það er gaman að velta því fyrir sér vegna þessara útstrikana hvert raunverulegt lýðræðislegt umboð Björns Bjarnasonar sem þingmanns sé fyrir næsta kjörtímabil. 

Hann var kjörinn í þetta sæti með 4.506 atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í október síðastliðnum, þe. uppsöfnuð atkvæði hans í 1.-3. sæti fyrir Reykjavíkurkjördæmið allt.

Þeir sem strikuðu yfir hann voru 2.514, en það var úr öðru Reykjavíkurkjördæminu en ekki báðum. Enn fremur greiddi nokkuð há prósenta atkvæði utan kjörstaðar, og hafði ekki kost á því að strika yfir frambjóðendur eða breyta röð þeirra. 

Ef að nú Reykjavík væri eitt kjördæmi, og yfirstrikanir hefðu líka verið mögulegar utan kjörfundar, eru því sýnist mér þó nokkrar líkur á því að þeir sem strikuðu hann út hefðu verið nokkuð fleiri en þeir hverra umboði í hann sat í þessu sæti.

Sem hlýtur að vera umhugsunarefni.  


Eftir að Grétar grenntist já

"Frjálslyndir er samsafn flóttamanna og fýlupúka víða að. Annað eiga þeir vart sameiginlegt eftir að Grétar Mar grenntist."

Vefþjóðviljinn? Oneeii, þessi ummæli á Benedikt Jóhannesson á heimur.is


Vonbrigði helgarinnar

Annars voru það vonbrigði helgarinnar að stórvinur minn, Pawel Bartoszek varð að  láta sér lynda annað sætið í Eurovision. Vona honum gangi þá bara betur næst. Næsti Performans verður á Hróarskeldu. :)

Sigur hjá Íhaldinu

Miðað við síðustu alþingiskosningar er svarið klárlega já. En það voru ekki beint góðar kosningar.

Ef að meðaltal frá árinu 1959 er tekið, þá er það 37,0 prósent. En þegar afhroðið árið 1987, þegar flokkurinn klofnaði og Borgaraflokkurinn bauð fram, er meðaltal Sjálfstæðisflokksins 37,8 prósent. Það væri eðlilegra að miða við þá tölu.

En meðaltalið eitt og sér er ekki samanburðarhæfasta talan í sögulegu samhengi. Best væri að skoða fylgi flokksins við sambærilegar aðstæður: Þ.e.a.s að Sjálfstæðisflokkurinn sé í stjórn og efnahagsástandið í landinu mjög gott: Lítið atvinnuleysi, góður kaupmáttur, hagvöxtur etc. 

Því miður er ekki hægt að glöggva sig á því á vef hagstofunnar. En ég hugsa að þá ætti helst að miða við árin 1963 (41,4%) og 1999 (40,7%). 

Einnig mætti, þó maður sé þá líklega kominn út á hálari braut, reyna að skilgreina kosningaár þar sem leiða mætti líkur að því að aðstæður væru Sjálfstæðisflokknum hagfelldar. Þá mætti með góðri samvisku bæta við þessum kosningaárum:

1974 (42,7%): Umdeild vinstristjórn búin að sitja sem misst hafði tökin á efnahagsmálum, og reyndar fleiri málum.

1983 (38,7%): Mikil efnahagsóstjórn hafði verið hjá veikri ríkisstjórn sem Gunnar Thoroddsen fór fyrir, verðbólga hafði náð þriggja stafa tölu um stundarsakir.

1991 (38,6%): Vinstri stjórn Steingríms, Jóns Baldvins og Ólafs Ragnars búin að vera við völd. Trúlega skásta ríkisstjórnin, en þó umdeild og líka á margan hátt veikburða. Ný forysta tekin við hjá Sjálfstæðisflokknum.

Nú reyndar man ég ekkert um hvernig pólitíska landslagið lá eftir þriðja viðreisnarkjörtímabilið, árið 1971, en þá fékk flokkurinn 36,2%.

En miðað við fylgi frá fyrri tíð sýnist mér að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að geta náð betri kosningu. 


Talnaglöggur er hann ...

Fyndin fljótfærnisvilla hjá okkar manni á Brúnastöðum, Hr. Ágústssyni, í lok þessarar fréttar.

"Guðni segir alls ekki útilokað að mynda ríkisstjórn með eins manns meirihluta en það kalli á vandaðri vinnubrögð og meiri samstöðu. Hann segir þó æskilegra að ríkisstjórn hafi meirihluta upp á þrjá til fjóra þingmenn."


Væri Halldór enn við völd ....

Árum saman langaði hann að gera Framsóknarflokkinn Reykjavíkurlegri og hafa traustan fylgisstokk þar. Vildi fjarlægjast landsbyggðina og færa hann nær miðjunni. 

En hvað gerðist í gær? Jú, Framsóknarflokkurinn dó út í Reykjavík. Það gæti meira að segja verið varanlegt - eigum við kannski ekki bara að vona það?

Ég spái því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ríkisstjórn með Samfylkingu eða vinstri grænum, og að Framsóknarflokkurinn snúi baki við stuðningi við kvótakerfið, fókusi algerlega á að byggja sig upp sem landsbyggðarflokk, og að sameining hans og Frjálslynda flokksins muni koma til athugunar á kjörtímabilinu. Jón Magnússon er líklegra formannsefni en Kristinn H. Gunnarsson ... 


Atkvæðið ákveðið

Það lætur nærri að komandi kosningar á morgun hafi hvílt á mér. Ég hef átt mjög erfitt með að ákveða hvað ég ætla að kjósa. 

Það er þó ekki stefnumálanna vegna, heldur er þetta leitin að manni sjálfum. Hver er ég? Hvað finnst mér skipta máli? Þetta eru fyrstu Alþingiskosningarnar síðan ég hætti í Sjálfstæðisflokknum, sem ég hef reyndar aldrei kallað annað en Íhaldið síðan.

Ef það er eitthvað eitt sem ég myndi vilja gera með mínu atkvæði er það að stoppa stóriðjustefnuna. Mér finnst þetta algert rugl. Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á henni til jafns við Framsókn, og styður hana. Og það mátti ráða af viðtali við formanninn að hann lyti öðrum þræði á hana sem gott hagstjórnartæki til að jafna út sveiflur. 

Ísland í dag geldur ekki á nokkurn hátt fyrir ömurlega hagstjórn áranna 1930-1960. Það geldur ekki fyrir nokkrar veikar vinstri stjórnir sem misstu stjórn á efnahagsmálum og söfnuðu skuldum.

Ísland dagsins í dag geldur hins vegar enn fyrir gegndarlausa offjárfestingu, sem stjórnvöld stuðluðu að með beinum hætti í sjávarútvegi og landbúnaði, sem oft á tíðum gekk beinlínis út á að skapa störf frekar en verðmæti. Það var verið að móta líf fólks, og byggja upp atvinnuhætti sem móta samfélagið enn í dag, mörgum áratugum síðar.  Byggðavandamál dagsins í dag, má að verulega leyti rekja til pólitískra offjárfestinga, sem um margt eru sambærilegar við stóriðjuruglið - sem nú þykir henta til að draga úr fyrirsjáanlegri niðursveiflu í hagkerfinu.

En það er svosem fleira sem vefst fyrir mér. En ég veit ekki hvernig ég á að orða það í stuttu máli frá eigin brjósti.  

Svo ég ætla að láta duga að vitna í fleyg ummæli sem Ólafur Thors lét falla í kosningabaráttu fyrir nokkru síðan, um að Framsóknarflokkurinn yrði að þvo af sér þann smánarblett að hafa gert Hriflu-Jónas að dómsmálaráðherra þjóðarinnar í ein fimm ár. Og voru tilefnin ærin. 

Þannig að ég mun ekki kjósa Íhaldið á morgun, og ekki Jón H.B. Snorrason heldur.


Verkefni húseigandans

Hér er köttur dagsins, kann sitt lítið af hverju.

En já, ég er sumsé ekki að fara að horfa á Júróvisjon í kvöld, heldur að gera eitthvað gáfulegra en það. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband