Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Byssur á Íslandi og í BNA

Ég sé að gamall kunningi, Friðbjörn Orri, tjáir sig um skotvopnaeign á Íslandi og í Bandaríkjunum í kjölfar fjöldamorðanna í Virginia Tech; já og lýsir sig reyndar líka andvígan því að lög um skotvopnaeign séu hert í kjölfar slíkra voðaverka.

En hvaða vopn notaði Cho Seung-hui? Það voru 9mm Glock 19 og Walther P22. Báðar eru hálfsjálfvirkar skammbyssur, Glockinn trúlega 15 skota og Waltherinn tíu skot. Hérlendis má hvorki eiga skammbyssur né hálfsjálfvirk vopn. Sjá Vopnalögin.

Þessar byssur keypti ódæðismaðurinn með löglegum hætti, hvora í sínu lagi, aðra 9. febrúar síðastliðinn og hina 13. mars, skv. grein Wikipedia

Cho virðist af fjölmiðlum hafa verið félagslega heftur einfari, sem hefði ef til vill ekki geta orðið sér út um vopn með ólöglegum hætti. Hann bjó á heimavist og það hefði verið vandkvæðum bundið að smygla þangað stærra vopni en skammbyssu. Hann gat valsað vopnaður um skólasvæðið í tvær klukkustundir frá fyrstu morðunum þar til hann hófst handa í verkfræðiálmunni þar sem fjöldamorðin áttu sér stað. 

Það er í rauninni algerlega fráleitt að halda því fram að bandarísk vopnalöggjöf hafi engu máli skipt. Hann hefði aldrei náð að myrða 32 einstaklinga hefði íslensk skotvopnalöggjöf gilt í Bandaríkjunum, enda gæti geðbilaður maður aldrei getað orðið sér út um jafn öflug sem og handhæg vopn með jafnlítilli fyrirhöfn hér á landi.


Skólinn í BNA ætti að skammast sín

Bloggarinn sem hefur viðbjóð á Amnesty hefur eftirfarandi um skólann að segja þar sem fjöldamorðin áttu sér stað:

"T.d. bannaði þessi tiltekni skóli nemendum sínum og kennurum að hafa á sér vopn til sjálfsvarnar, þrátt fyrir að lög ríkisins heimiluðu það. Brot varðar brottvísun úr skóla.

Það varð auðvitað til þess að engin gat varist morðingjanum, engin gat nýtt sér sinn grundvallarrétt til sjálfsvarnar.

Það segir sig sjálft að ef skólinn hefði ekki haft þessar reglur, sem voru að vísu ætlaðar voru til þess að fólk héldi sig öruggt, og menn nýtt sér sinn rétt, hefðu ekki nærri því jafnmargið fallið og aftökur algerlega ómögulegar."

Þá vitum við það: Við þurfum að gera vopnaburð tiltölulega almennan, til dæmis meðal nemenda í skólum, til að koma í veg fyrir morð og aftökur á almannafæri.

Kommentinu hans lýkur reyndar ekki þarna, heldur klykkir hann út með þessum gullmola:

"Ástæðan fyrir þessum fjöldamorðum er einfaldlega sú að fólk er algerlega berskjaldað og óvarið og því auðveld bráð fyrir glæpamenn í þessum hugleiðingum."

 


Webbinn um Samfylkingun

Illkvittnin í skrifum Webbans um landsfund Samfylkingarinnar er yndisleg sem slík:

"Kosningarétt í kjörinu höfðu því 623,6 sem er vonandi óhætt að námunda í 624 þótt Jón Baldvin hafi verið á fundinum."

Ó, að einhver gæti skrifað svona um Sjálfstæðisflokkinn endrum og eins. Múrinn er hættur að standa sig í stykkinu fyrir löngu síðan. Ég trúi því til dæmis varla að Ármann hafi skrifað þetta, taldi það víst að þetta væri einhver af menntaskólakrökkum Múrsins. 


Nýjustu fréttir af skoðanaleysi Samfylkingarinnar

... eru komnar úr merkilegri atkvæðagreiðslu sem haldin var á landsfundi þar nýverið. Harðar umræður urðu á fundinum um ályktun þess efnis að hefja á ný viðræður við Bandaríkin um að endurskoða viðaukana í varnarsamkomulaginu.

Tillagan var naumlega felld. Atkvæði féllu þannig að 81 greiddi atkvæði á móti nýjum viðræðum, 69 greiddu atkvæði með en tæplega 1200 manns sátu hjá, enda málið ekki fjölmiðlavænt og vel fallið til þess að hafa skoðun á. Þá eru einungis taldir skráðir fulltrúar, en ekki almennir gestir sem höfðu ekki kosningarétt.  


Tekið upp í skuldir?

Er það ósennilegt að Blaðið hafi hreinlega verið tekið upp í prentskuld? Ég fyrir mitt leyti yrði ekki hissa á því. Sjálfsagt var það líka raunin þegar helmingurinn var "keyptur" á sínum tíma. 

Spurningin er hvort að dreifingin á Blaðinu lagist þá í kjölfarið? Reyndar væri ekki verra ef Blaðið yrði lagt niður, enda eru sölumennskan þarna terrorismi fyrir alla aðra sem eru að garfa í útgáfu fríblaða.

Ef til vill væri það gáfulegt módel fyrir Árvakur að gera Blaðið að litla-mogga. Einhverjar síður blaðanna yrðu samnýttar, og ef til vill reynt að búa þannig um að þeir sem keyptu auglýsingar fengju þær birtar í báðum blöðum. Blaðið yrði síðan fyrst og fremst borið út til þeirra sem ekki kaupa Moggann, en með miklu minna og ómerkilegra efni. Dreifikerfi í hvert hús á landinu er í það minnsta ekki svo vitlaus hugmynd.  


mbl.is Árvakur eignast allt hlutafé í Ári og degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með viðbjóð á fleiru

Maðurinn sem er tvífari Tarantino og hefur viðbjóð á Amnesty þykir líka viðbjóðsleg greinin sem margfrægur bandarískur prófessor skrifaði um Ísland; tekur hann á orðinu og hefur margt við greinina að athuga. 

Svo ég kvóti í Pétur: "Grundvallaratriðið er að Ísland er frjálst lýðræðisríki og því þarf ekki að frelsa þegna þess." Þarf nokkuð meira um málið að segja?


Vinaflesti bloggarinn með 327 bloggvini!

Jú, það er Stebbifr. En fjöldi bloggvinanna hans er 327 (11. apríl 2007 kl. 13:25). Hann er því vinaflesti* bloggarinn.

Fast á hæla hans, eftir því sem ég kemst næst, er Sigmar Guðmundsson með 213 bloggvini, en það má vel vera að einhver geti leiðrétt það. Fljótlegasta leiðin til að telja bloggvini er að peista þá inn í Excel. 

Ég held ég kvóti bara fyrirfram beint í StebbaPáls: "Megi moggabloggið kafna í faðmlögum bloggvina." 

*Vinaflesti er mitt nýyrði þar sem vinsælastur á ekki við. Vinamargur er gott lýsingarorð en því miður bara til í frumstigi, þangað til nú. Gott miðstig, einhver?


Anarkistarnir tíu í VG?

Gunnar Smári mun víst eitthvað hafa rætt um væntanlega nýliða VG í Silfrinu um daginn og taldi Geir og co. ekki átta sig á því að þeir yrðu etv. erfiðari en Ögmundur og Steingrímur. Egill endurtekur þetta í dag

"Geir Haarde les stöðuna líklega svo að hægt sé að fara í ríkisstjórn með Steingrími og Ögmundi þrátt fyrir meinta róttæka vinstristefnu þeirra. Hann telur að þeir hafi góð tök á flokki sínum. Það þarf ekki að vera rétt. Ef marka má skoðanakannanir mæta Steingrímur og Ögmundur á þing eftir kosningar með tíu nýgræðinga. Þetta er fólk sem brennur í andanum, langar að bjarga heiminum, er vant alls kyns hugsjónastarfi úti í bæ og vill helst ekki þurfa að gera málamiðlanir."

Það væri, úr því farið er að margtyggja á þessu, ekki úr vegi að skoða hverjir þessir hugsanlegu grasrótarrebellar Egils, sem eiga að eyðileggja þetta stjórnarmynstur, eru. Líklegir kandidatar væru:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Árni Þór Sigurðarson
Paul F. Nikolov
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Atli Gíslason
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Björn Valur Gíslason
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Gestur Svavarsson

Ég fyrir mitt leyti get ekki séð á þessum nýliðalista að fótur sé fyrir vangaveltum Egils um þetta atriði, heldur þvert á móti ef eitthvað er.

Það má nú segja sittlítið af hverju um Vinstri græna og þeirra stefnumál, en það er nú þrátt fyrir það held ég ástæðulaust að ganga út frá því sem gefnu að óathuguðu máli að hver einasti maður sem þar rekur inn nefnið sé með öllu ósamstarfshæfur vitleysingur sé hann ekki búinn að verða sér út um reynslu af "alvöru pólitík", helst með áratuga þingsetu að baki. ...


Haganlegir Hafnfirðingar og uppskriftin að Hafnarfjarðarbrandara

Þeir eru ekki hættir hjá Hag Hafnarfjarðar að fjasa um ólöglega innflytjendur í bænum skömmu fyrir kosningar - en reyndar hafa tölurnar lækkað

Það hefur löngum þótt á Íslandi að vera hagmæltur. En hvað með Hagmældur? 

Annars fékk ég skýringu á því um daginn hvaðan talan 700 myndi hafa verið komin: Altso voru tæplega 700 manns fleira á kjörskrá í Hafnarfirði fyrir íbúakosningarnar en kusu í Alþingiskosningum fyrir fjórum árum.

Það þýðir að einhver hefur búið til gagnagrunn með þeirri kjörskrá, í honum hefur mátt sjá fjölda kjósenda og einhver hefur síðan "lagt saman 2+2" og séð í gegnum allt heila samsærið þegar hann sá í fjölmiðlum tölur um fjölda íbúa á kjörskrá og séð 700 aukalega. "Rökstuddan grun," - lét einhver frá samtökunum hafa eftir sér í fjölmiðlum. 

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar búa 24.000 manns í Hafnarfirði. Það er slatti og nú ætla þeir hagmældu að kæra þar sem þeir þykjast (með frekar shaky tölfræðiaðferðum) sjá út að 130 manns meira, en búast hefði mátt við miðað við næstu mánuði á undan, hafi flutt til Hafnarfjarðar, en það eru þá 0,54% af heildaríbúafjölda Hafnarfjarðar. 

Rétt er að taka fram að þessi prósentutala er frá mér komin. Gaflaranum sem setti á fót tölfræðirannsóknastofu í bílskúrnum heima hjá sér virðist ekki hafa hugkvæmst að reikna hana út áður en niðurstöðurnar voru kynntar í fjölmiðlum. 

En það er samt sem áður ekki ómögulegt að einhverjir hafi gagngert flutt um stundarsakir til að kjósa þó Hafnarfjörður sé lítið eitt fjölmennari en Skorradalur þar sem þessi iðja hefur lengi verið stunduð. Vandinn við að kæra kosninguna fyrir þær sakir er sá að það er ekki ólöglegt, og þó að flutningurinn sé varla fegursta birtingarmynd lýðræðisins er hann heldur ekki beinlínis ósiðlegur, nema auðvitað það komi í ljós að fólk með eina skoðun hafi einhverra hluta vegna fengið betri aðstöðu til þess en fólkið með hina skoðunina, þá væntanlega með aðstoð starfsfólks Þjóðskrárinnar. 

Það er auðvitað ekkert nýtt við lögheimilisflutninga vegna kosninga. Þeir hafa margoft verið stundaðir með skipulögðum hætti í ýmsum kosningarbaráttum, og það gæti sem hæglegast hafa átt sér stað nú - en þá er kannski rétt að velta því fyrir sér hver það var sem stundaði skipulögðustu kosningabaráttuna í firðinum.

Það grátbroslegasta við campaignið hjá Hagi Hafnarfjarðar er ekki hvað það lýsir takmarkaðri þekkingu á öllu í senn: Almennum kosningavinnubrögðum, íslenskri lögfræði, samanburðarútreikningum í tölfræði eða hreinlega lélegum almannatengslum.

Því ef að nú villtustu draumar hagmældra myndu rætast, málið yrði rannsakað og það kæmi á daginn að skipulagðir flutningar hefðu átt sér virðist nokkuð ljóst að obbi lögheimilisflutninganna væri kominn úr röðum álversstarfsmanna sem jafnframt eru utanbæjarmenn.  

Og þá værum við aldeilis komin með góðan Hafnarfjarðarbrandara, ekki satt.  


Auðkennilegur drykkjuleikur

Nýjasti drykkjuleikurinn er víst fólginn í því að allir taka upp Auðkennislykilinn sinn, kveikja, og sá sem fær lægstu töluna verður að gera svo vel að klára í botn.

Hann verður varla langlífur, enda sé ég ekki betur en þetta sé útþynnt útgáfa af eldri leik, sem ég hef reyndar ekki stundað, en heitir einfaldlega kex. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband