30.1.2007 | 13:11
Glötuð pólitík í dag
Það verður eiginlega að segjast alveg eins og er að íslensk pólitík er frekar geld í dag, og það litla sem er að gerast lofar hreint ekki góðu.
Þess vegna var ekki laust við að maður yrði því feginn að Jón Baldvin léti til sín taka og hótaði að stofna Krataflokk. Ég hef alltaf verið hrifinn af kallinum, þó ekki væri nema vegna þess að hann hefur skoðanir og prinsipp og er í pólitík fyrir þau. Eltist ekki við skoðanakannanir heldur beitir sér fyrir sínu hvort sem það er að fara að ganga eða ekki. Það er ekki eins og það séu margir þannig í pólitík í dag.
Vinstri grænir eru í raun gamaldags valdapólitíkusar, bæði Steingrímur og Ögmundur, sem hafa, ef marka má nýjustu kannanir, náð góðum árangri í að byggja upp trúverðugleika í umhverfis- og jafnréttismálum - sem Samfylkingunni hefur ekki tekist. Það er holur lobbýhljómur í væntanlegum rasisma frjálslynda flokksins. Samfylkingin hefur allar og engar skoðanir, Framsóknarflokkurinn hefur bara engar skoðanir en mun sjálfsagt eins og venjulega finna 2-3 einföld og skýr mál til að lofa til að redda nokkrum prósentum, sem verður sjálfsagt ekki mikið mál þegar allt er í molum hjá smátyrninu.
Sjálfur hef ég ekki hugmynd um það hvaða Sjálfstæðisflokkurinn raunverulega stendur fyrir þó lengi hafi maður fylgst með honum. Eina hugmyndafræðin sem virðist vera sjáanleg hjá honum í ríkisstjórn er þessi um leyniþjónustu til að standa vörð um innra öryggi ríkisins. Sem er mjög merkilegt í ljósi þess að það er í rauninni varla nema eitt ríkisleyndarmál á Íslandi um þessar mundir: Það væru þá stjórnmálaskoðanir forsætisráðherra og ekki síður hvert hann ætlar með flokkinn sinn.
Í rauninni verður mjög forvitnilegt að sjá hvað verður úr framboðum hjá Jóni Baldvin og hjá Draumalandinu og ekki laust við að út úr því komi eitthvað sem maður mögulega gæti kosið með góðri samvisku. Því ég get eiginlega ekki hugsað mér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn með allan þennan farangur frá síðasta kjörtímabili nema það megi sjá fram á raunverulegar breytingar á kvikindinu. Og hversu miklar líkur eru á því?
Eins og hann lítur út núna eru allar líkur á því að ráðherralistinn verði nokkurn veginn eins og síðast: Geir, Þorgerður, ÁrniMatt, Sturla, EinarK og Bóbó.is. Spurning er líklega hverjum yrði skipt út um mitt kjörtímabil - fyrir Guðlaug Þór. Trúlega yrði það Sturla og Grafarvogur fengi þá loksins samgöngumálaráðuneytið. Tommi yrði hrifinn af því.
Íslensk pólitík, eins og hún er þessa stundinda, er álíka þreytt og bloggfærslurnar hans Egils Helgasonar. Mættum við þá frekar biðja um þras um póstmódernisma. :)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Annars konar ég
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála þér í flestu, frændi. Gamlir skynsamir Sjálfstæðismenn geta ekki annað en klórað sér í hausnum yfir síðasta kjörtímabili. Enginn veit hvert Sjálfstæðisflokkurinn er að stefna. Hann heldur bara áfram sinni för án þess að vita hvert markið er. Ljóst er þó hvert SUS stefnir. Við munum enda sem bandarískt þjóðfélag.
Jón Baldvin hitti naglann ítrekað á höfuðið í Silfrinu um helgina. Það er hræðilegt að horfa upp á aðgerðaleysi Samfylkingarinnar. Hún hefur ekkert brugðist við fallandi fylgi.
Ég skilgreindi minn draumflokk og leitaði svo af þeim flokki sem gat best fallið að því. Sá flokkur er Samfylkingin. Ég er ekki sammála þér um að hún sé skoðanalaus. Stefnuskrá hennar er ítarlegri en aðrar stefnuskrár flokka. Hins vegar er eins og margt Samfylkingarfólk hafi ekki lesið þau plögg. Ljóst er að stefna Ungra jafnaðarmanna er skynsöm og mun bjóða upp á gott þjóðfélag til framtíðar.
Það á að stofna stjórnmálaflokka til að bjóða upp á nýja framtíðarsýn fyrir þjóðfélagið. Ekki er þörf á öðrum jafnaðarmannaflokki því hann er til. Það eru bara allt of fáir sem vita það og allt of fáir sem vita að þeir eru jafnaðarmenn.
Gulli Kr. Jör.
Gulli (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 18:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.