4.4.2007 | 13:33
Haganlegir Hafnfirðingar og uppskriftin að Hafnarfjarðarbrandara
Þeir eru ekki hættir hjá Hag Hafnarfjarðar að fjasa um ólöglega innflytjendur í bænum skömmu fyrir kosningar - en reyndar hafa tölurnar lækkað.
Það hefur löngum þótt á Íslandi að vera hagmæltur. En hvað með Hagmældur?
Annars fékk ég skýringu á því um daginn hvaðan talan 700 myndi hafa verið komin: Altso voru tæplega 700 manns fleira á kjörskrá í Hafnarfirði fyrir íbúakosningarnar en kusu í Alþingiskosningum fyrir fjórum árum.
Það þýðir að einhver hefur búið til gagnagrunn með þeirri kjörskrá, í honum hefur mátt sjá fjölda kjósenda og einhver hefur síðan "lagt saman 2+2" og séð í gegnum allt heila samsærið þegar hann sá í fjölmiðlum tölur um fjölda íbúa á kjörskrá og séð 700 aukalega. "Rökstuddan grun," - lét einhver frá samtökunum hafa eftir sér í fjölmiðlum.
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar búa 24.000 manns í Hafnarfirði. Það er slatti og nú ætla þeir hagmældu að kæra þar sem þeir þykjast (með frekar shaky tölfræðiaðferðum) sjá út að 130 manns meira, en búast hefði mátt við miðað við næstu mánuði á undan, hafi flutt til Hafnarfjarðar, en það eru þá 0,54% af heildaríbúafjölda Hafnarfjarðar.
Rétt er að taka fram að þessi prósentutala er frá mér komin. Gaflaranum sem setti á fót tölfræðirannsóknastofu í bílskúrnum heima hjá sér virðist ekki hafa hugkvæmst að reikna hana út áður en niðurstöðurnar voru kynntar í fjölmiðlum.
En það er samt sem áður ekki ómögulegt að einhverjir hafi gagngert flutt um stundarsakir til að kjósa þó Hafnarfjörður sé lítið eitt fjölmennari en Skorradalur þar sem þessi iðja hefur lengi verið stunduð. Vandinn við að kæra kosninguna fyrir þær sakir er sá að það er ekki ólöglegt, og þó að flutningurinn sé varla fegursta birtingarmynd lýðræðisins er hann heldur ekki beinlínis ósiðlegur, nema auðvitað það komi í ljós að fólk með eina skoðun hafi einhverra hluta vegna fengið betri aðstöðu til þess en fólkið með hina skoðunina, þá væntanlega með aðstoð starfsfólks Þjóðskrárinnar.
Það er auðvitað ekkert nýtt við lögheimilisflutninga vegna kosninga. Þeir hafa margoft verið stundaðir með skipulögðum hætti í ýmsum kosningarbaráttum, og það gæti sem hæglegast hafa átt sér stað nú - en þá er kannski rétt að velta því fyrir sér hver það var sem stundaði skipulögðustu kosningabaráttuna í firðinum.
Það grátbroslegasta við campaignið hjá Hagi Hafnarfjarðar er ekki hvað það lýsir takmarkaðri þekkingu á öllu í senn: Almennum kosningavinnubrögðum, íslenskri lögfræði, samanburðarútreikningum í tölfræði eða hreinlega lélegum almannatengslum.
Því ef að nú villtustu draumar hagmældra myndu rætast, málið yrði rannsakað og það kæmi á daginn að skipulagðir flutningar hefðu átt sér virðist nokkuð ljóst að obbi lögheimilisflutninganna væri kominn úr röðum álversstarfsmanna sem jafnframt eru utanbæjarmenn.
Og þá værum við aldeilis komin með góðan Hafnarfjarðarbrandara, ekki satt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Annars konar ég
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.