30.4.2007 | 13:07
Andlit nýrrar kynslóðar hættir
Ég man ennþá eftir því þegar nýr banki var stofnaður, og Bjarni Ármannsson varð bankastjóri hans. Gerólíkur því sem menn höfðu áður þekkt, ungur en eldklár, með gleraugu og hárið sleikt aftur. Varð viðfangsefni í fjöldamörgum tímaritum og var með sitt skrifborð inni í opna vinnurýminu innan um hina starfsmennina.
Mér skilst reyndar að það fyrirkomulag hafi illa staðist tímans tönn, en ekki hafi verið vakin athygli á því fjölmiðlum þegar skrifstofa bankastjórans hvarf af gólfinu.
Seinna varð Fjárfestingarbankinn Íslandsbanki-FBA, seinna bara Íslandsbanki og síðar Glitnir, en alltaf var Bjarni þarna. Hét hann ekki Valur sem var á tímabili bankastjóri með honum?
Það er ekki eins og þessi tími hafi verið átakalaus og líklega má rekja margt sem síðar gerðist í stjórnmálalífinu til þess þegar Orcahópurinn svokallaði steig fram á sjónarsviðið. Var þetta kannski síðbúin yfirtaka úr þeirri átt?
En nú er Bjarni trúlega á útleið, enda er maður búinn að heyra þrjá mögulega arftaka nefnda síðustu daga á bloggum og blöðum. Ég myndi halda það væri nokkur missir. Fyrir mér hefur hann alltaf haft meiri ímynd en hinir bankastjórarnir, þó ungir séu, og sjálfsagt finnst það fleirum. Í það minnsta finnast mér þetta merkilegri fréttir af mannabreytingum í atvinnulífinu en flestar aðrar síðustu árin. Í svipinn man ég ekki einu sinni hvað hann hét, þessi sem Bjöggi dömpaði úr Straumi-Burðarás.
Ég geri mér heldur ekki vel grein fyrir því hvað þessar væringar allar snúast og hef stundum á tilfinningunni að það sé lítið merkilegra en hver annar Heimdallarslagur, skipti litlu fyrir land og þjóð en sé af einhverjum ástæðum, sem eru heimatilbúin hernaðarleyndarmál fyrir útvalda, mjög stórt viðfangsefni í hugum þeirra sem taka þátt.
Mun Glitnir skipta oftar um nafn? Eða verða einhverjar róttækar breytingar á e-i fjárfestingarstefnu sem ég veit svosem ekkert um hvað snýst. Ég held ekki. En sjálfsagt þykir Jóni Ásgeiri gaman að eiga loksins banka, eftir allt sem á undan er gengið. Mikill sigur fyrir hann og Co. og ósigur fyrir hina. Davíð er sjálfsagt með einhverja skoðun á þessu uppi í Seðló sem honum mun ganga illa að þegja yfir.
Og af hverju hættir Bjarni. Tekur betri maður við, eða snýst þetta um að einhvers staðar í ferlinu hafi hann ekki stigið nógu gætilega til jarðar nærri einhverjum plottaranum? Sagt eitthvað vanhugsað og nú geti nýi eigandinn ekki treyst honum. Eða verður kannski ráðinn einhver sem kjölfestufjárfestirinn treystir til að gæta sinna hagsmuna betur en hins almenna hluthafa? En það er víst eitthvað í þá veruna sem allur þessi barningur snýst um.
Ekki á ég hlut í bankanum eða viðskipti þar. Löngu hættur að nenna að spá í þessu. En Bjarni er að hætta og það eru fréttir af því maður er orðinn svo vanur andlitinu á honum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Annars konar ég
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.