Leita í fréttum mbl.is

Talnaglöggur er hann ...

Fyndin fljótfærnisvilla hjá okkar manni á Brúnastöðum, Hr. Ágústssyni, í lok þessarar fréttar.

"Guðni segir alls ekki útilokað að mynda ríkisstjórn með eins manns meirihluta en það kalli á vandaðri vinnubrögð og meiri samstöðu. Hann segir þó æskilegra að ríkisstjórn hafi meirihluta upp á þrjá til fjóra þingmenn."


Væri Halldór enn við völd ....

Árum saman langaði hann að gera Framsóknarflokkinn Reykjavíkurlegri og hafa traustan fylgisstokk þar. Vildi fjarlægjast landsbyggðina og færa hann nær miðjunni. 

En hvað gerðist í gær? Jú, Framsóknarflokkurinn dó út í Reykjavík. Það gæti meira að segja verið varanlegt - eigum við kannski ekki bara að vona það?

Ég spái því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ríkisstjórn með Samfylkingu eða vinstri grænum, og að Framsóknarflokkurinn snúi baki við stuðningi við kvótakerfið, fókusi algerlega á að byggja sig upp sem landsbyggðarflokk, og að sameining hans og Frjálslynda flokksins muni koma til athugunar á kjörtímabilinu. Jón Magnússon er líklegra formannsefni en Kristinn H. Gunnarsson ... 


Atkvæðið ákveðið

Það lætur nærri að komandi kosningar á morgun hafi hvílt á mér. Ég hef átt mjög erfitt með að ákveða hvað ég ætla að kjósa. 

Það er þó ekki stefnumálanna vegna, heldur er þetta leitin að manni sjálfum. Hver er ég? Hvað finnst mér skipta máli? Þetta eru fyrstu Alþingiskosningarnar síðan ég hætti í Sjálfstæðisflokknum, sem ég hef reyndar aldrei kallað annað en Íhaldið síðan.

Ef það er eitthvað eitt sem ég myndi vilja gera með mínu atkvæði er það að stoppa stóriðjustefnuna. Mér finnst þetta algert rugl. Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á henni til jafns við Framsókn, og styður hana. Og það mátti ráða af viðtali við formanninn að hann lyti öðrum þræði á hana sem gott hagstjórnartæki til að jafna út sveiflur. 

Ísland í dag geldur ekki á nokkurn hátt fyrir ömurlega hagstjórn áranna 1930-1960. Það geldur ekki fyrir nokkrar veikar vinstri stjórnir sem misstu stjórn á efnahagsmálum og söfnuðu skuldum.

Ísland dagsins í dag geldur hins vegar enn fyrir gegndarlausa offjárfestingu, sem stjórnvöld stuðluðu að með beinum hætti í sjávarútvegi og landbúnaði, sem oft á tíðum gekk beinlínis út á að skapa störf frekar en verðmæti. Það var verið að móta líf fólks, og byggja upp atvinnuhætti sem móta samfélagið enn í dag, mörgum áratugum síðar.  Byggðavandamál dagsins í dag, má að verulega leyti rekja til pólitískra offjárfestinga, sem um margt eru sambærilegar við stóriðjuruglið - sem nú þykir henta til að draga úr fyrirsjáanlegri niðursveiflu í hagkerfinu.

En það er svosem fleira sem vefst fyrir mér. En ég veit ekki hvernig ég á að orða það í stuttu máli frá eigin brjósti.  

Svo ég ætla að láta duga að vitna í fleyg ummæli sem Ólafur Thors lét falla í kosningabaráttu fyrir nokkru síðan, um að Framsóknarflokkurinn yrði að þvo af sér þann smánarblett að hafa gert Hriflu-Jónas að dómsmálaráðherra þjóðarinnar í ein fimm ár. Og voru tilefnin ærin. 

Þannig að ég mun ekki kjósa Íhaldið á morgun, og ekki Jón H.B. Snorrason heldur.


Verkefni húseigandans

Hér er köttur dagsins, kann sitt lítið af hverju.

En já, ég er sumsé ekki að fara að horfa á Júróvisjon í kvöld, heldur að gera eitthvað gáfulegra en það. 


Forvitnilegar yfirlýsingar Jóns HB

Þær hafa ekki rúllað í öðrum fjölmiðlum í dag þær forvitnilegu upplýsingar sem Jón HB Snorrason lét frá sér í viðtali við Sigríði Hagalín Björnsdóttir á RÚV í kvöldfréttatímanum í gær, en þar var rætt um Roma sígaunana sem "þáðu vinsamlegt boð yfirvalda" um að fara úr landi. 

"SHB: Jón segir að svo virðist sem að glæpaklíkur flytji fólkið inn frá Rúmeníu.

JHBS: Við höfum upplýsingar um það frá Noregi og Danmörku, að eftir því sem þeir hafa sannreynt í fjölda tilvika að þá virðist svo vera.

SHB: Því sé jafnvel flogið hingað inn og það fái ekki að fara aftur fyrr en það sé búið að vinna sér inn ákveðna upphæð?

JHBS: Já!"

"Svo virðist", eða með öðrum orðum engar sannanir. Og fyrir þá hvaða glæp? Það er töluvert fyrirtæki að flytja hóp fólks til landsins, og meira en aðeins fargjöldin sem þarf að greiða. Betl hefur sjaldnast þótt arðbær atvinnustarfsemi og ég á erfitt með að ímynda mér viðskiptatækifærin sem glæpahóparnir sjá þá í henni. 

Í þessu samhengi verður manni hugsað til þeirra lífseigu ímyndar sem af flökkusígaunum fer víða um lönd, að þeir séu allra kvikinda þjófóttastir, nema kannski að hobbitum undanskildum. Meint vinna sem Jón þykist þá vita af hlýtur að vera fólgin í því, eða einhverri annarri ólöglegri glæpastarfsemi.

Getur það verið að íslensk yfirvöld hafi ákveðið að fjarlægja þá úr landi áður en þeir færu að stela, eins og búast mætti við af "þessu fólki"? Eða í það minnsta haft það í huga. Það væri held ég aldeilis stórfrétt, á sama tíma og Jón Magnússon dreymir um að gera innflytjendamál að kosningamáli. Í öllu falli er þessi yfirlýsing Jóns í meira lagi kryptísk og hefur ekki verið endurtekin við aðra fjölmiðla.


mbl.is Hópur Rúmena í haldi lögreglunnar á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Topp10 listi: Blogg sem ég mun byrja að lesa aftur

... þegar kosningarnar eru búnar eða ég búinn að kjósa. Kannski.LoL

Össur
Pétur Gunnarsson
Þórir Hrafn
Kletturinn
Heiti Potturinn
Jóhann Alfreð
Reisubók Lárusar
Arnljótur Bjarki
Þorsteinn Davíðs 

Reyndar eru þetta bara níu blogg. En topp tíu listi skal það nú samt heita. 

Og hvern ætla ég að kjósa?

Jú, ég hugsa ég styðji Monty; í það minnsta sem kött dagsins og hugsanlega alla leið. :)


Tækifæri fyrir Framsókn?

Þessi Mintz virðist vera einmitt maðurinn sem Framsóknarflokkurinn þarf á að halda í framvarðasveitina.
mbl.is París Hilton: Óréttmæt og miskunnarlaus refsing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Apple springur?

Það er góð afþreying að horfa á Apple-auglýsingarnar. Sjálfsagt einhver best heppnaða auglýsingaherferð sem ég man eftir. 

Svo fann ég þennan Sketch með David Letterman, þar sem hann útskýrir af hverju hann vill ekki tölvu.

Sumsé: Ekki treysta auglýsingum? Wink


Íhaldsbubbles

Af hverju er Íhaldið að búa til Bubbles fyrir kosningarnar fyrir aðra til að spila? Það er til fullt af sniðugum tölvuleikjum, og það er í mesta lagi 1% þeirra sem er jafnheilaskemmandi og Bubbles. 

Af öllum vinsælustu leikjunum á leikjaneti er enginn sem gerir jafnlitlar kröfur til spilarans. Þó hann sé mikið spilaður er það áreiðanlega af stöðnuðustu og ókreatívustu netnotendum sem fyrirfinnast þarna úti, sem hafa ekkert betra að gera og hafa ekki einu sinni döngun í sér til að finna almennilegan tölvuleik. 

Eða bara annan tölvuleik. 

Þess utan er þetta leikur fyrir Framsóknarflokkinn: Þú þarft ekki að geta neitt eða kunna neitt, eftir 1-2 skipti geturðu spilað hann endalaust og þú tapar aldrei.  

Væru blöðrur ekki meira viðeigandi fyrir kosningar? Í það minnsta er alltaf nóg til af þeim. 

Viðbót: Í kjölfarið á þessum pælingum var mér bent á leikinn Blob Wars. Og það er alveg hárrétt að hann á vel við í kosningum, enda um eins konar atkvæða- eða hausaveiðar að ræða, samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum.


Webbinn á Sunnudegi

Öðruvísi mér áður brá. Nú eyðir Vefþjóðviljinn síðasta helgarsprokinu fyrir kosningar í að bjarga mannorði Jónínu Bjartmars.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband