Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Samfylkingin í Egilshöll!?!

Eru einhverjir fleiri en ég sem furða sig á því? Sjálfstæðisflokkurinn ætlar víst að láta Laugardalshöll duga, eins og venjulega.

Ég spái því að Andrési Jónssyni verði falið að sækja fólk á fundinn og Össuri verði falið að telja fundargesti.

Og þar með vaknar óhjákvæmilega spurningin hvort það skyldu mæta jafnmargir á landsfundinn og á Metallicatónleikana þarna um árið. :)


Dularfull forsíða

Forsíða Fréttablaðsins í dag er ein sú dularfyllsta sem um getur í langan tíma, um bréf sem maður fær í stuttu máli ekki að sjá neitt upp úr.

Næst fáum við líklega að sjá forsíðustórfréttir unnar upp úr óljósum staksteinameldingum eða upp úr nýjum upplýsingum sem bárust ritstjórn Morgunblaðsins sem það telur ekki eiga erindi við lesendur að svo stöddu, en fréttaefni þó.  


Ber nýtt DV dauðann með sér?

Ég held það, meira að segja án þess að hafa lesið blaðið sem kom í fyrsta skipti sem dagblað út í dag. 

Ég þykist hins vegar vita að þarna séu ágætis blaðamenn og að það muni ekki falla í sömu gryfju og DV Mikka Torfa. Og ég hugsa að concept um ágengt síðdegisblað geti vel fúnkerað. 

En þá þarf það eins og gefur að skilja að hafa áskrifendur. Mér sýnist að þetta viðskiptamódel hafi ekki verið hugsað til enda.

Meginástæða þess að hið nýja DV er prentað hjá Morgunblaðinu er afkastageta prentsmiðjunnar: Tíminn frá því ritstjórn skilar uppsettu blaði þar til það er fullprentað er mun skemmri. 

Stóra breytingin frá DV-MT er prenttíminn. Það verður ekki prentað á undan Fréttablaðinu (og þá að sama skapi skilað fyrr, heldur er það prentað fyrr sama daginn og það kemur út og blaðamennirnir munu eiga að skrifa fréttir dagsins um morguninn. Sem væri hreint ekki svo vitlaust ef það væri til dreifikerfi á landinu sem hentaði fjölmiðlinum, en svo er ekki.

Það kemur of seint úr prentvélinni fyrir dreifikerfi Íslandspóst, sem er þó síðar á ferðinni en Morgunblaðið og Fréttablaðið, en áður en 365 tók blaðið yfir var því dreift með Íslandspósti, en þá jafnframt prentað eitthvað fyrr. 

Það verða því engir áskrifendur, nema á helgarblaðinu. Nýja dagblaðið DV fæst aðeins í lausasölu. Hvernig á það að geta gengið til lengdar? 

Nú kvaðst Sigurjón hafa gefist upp á fríblöðunum, af því þau næðu svo illa til lesenda sinna. Varla þykir honum þetta betra?

Hitt er svo annað mál að líklega færi vel á því að hafa hér á landi eitt áskriftarblað, og eitt fríblað, sem er dreift á morgnana, og annað áskriftarblað og annað fríblað sem færu í öll hús sem væri dreift síðdegis - ekki satt. Svo nú er bara að veðja á hvort Blaðið eða Fréttablaðið stekkur á það á undan. ;)


Uppreist æru fyrir Kompás?

Nei ætli það nokkuð.

Án þess að gera lítið úr fyrrnefndum fréttum sem tilnefndar voru til rannsóknarblaðamennskuverðlauna þá sér maður það strax að hér er ekki mikið stundað af rannsóknarblaðamennsku, og kannski væri betra að sleppa því að verðlauna fyrir hana.

Af hverju eru ekki verðlaun fyrir bestu slúðurfréttaskrifin? Það vantar í það minnsta ekki þannig fréttir.  


mbl.is Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af ráðstefnugestum

Það mun ekki vera góður siður að vísa á eitthvað sem er handan marka klámsins, eða þá á brúninni.

En í þessu tilviki hefur það tvímælalaust fréttagildi, þannig að ég læt hérna fljóta með link á myndir síðasta árs af Snowgathering ráðstefnunni sem á víst að halda hér á landi eftir fáein misseri.  

Hver og einn getur þá síðan dæmt um það hvort landkynningin (ef nokkur) er af betri eða verri gerðinni.  

Síðan er það aftur spurning hvort það þarf einhverjar lagalegar aðgerðir til að stoppa dæmið. Miðað við nafnið og myndirnar gæti það einfaldlega dugað að gera ráðstefnuhöldurum það ljóst að það verði enginn snjór hérna í maí. 


Baugsmálið og mín sýn á íslenskt réttarfar

Ég hef aldrei á ævinni stigið fæti inn í íslenskan réttarsal.

Fyrir vikið eru mínar hugmyndir um það hvað þar fer fram að einhverju leyti litaðar af bandarískum reyfurum úr sjónvarpi, og þeim eldri frekar en þeim yngri þar sem ég hef lítið horft á sjónvarp undanfarin ár. Ég segi þó ekki að ég hafi beinlínis trúað á Matlock (þó ég geti enn hummað stefið).

Þótt ég hafi lesið dóma og hafi gegnum tíðina náð að tileinka mér örðu af júridískum þankagangi á snöpum er maður samt að sjá réttarfarið í nýju ljósi af fréttunum um Baugsmálið, og þá einkum eru inngrip dómarans að koma á óvart.

Í Matlock virtist það einkum vera hlutverk dómara að samþykkja á endanum spurningar verjandans Matlock sem komu út úr kú og virtust ekki koma málinu við þar til hann fletti ofan af hinum raunverulega morðingja með ævintýralegum hætti. Arnleifur Ísberg er greinilega ekki í því hlutverki og virðist í ofanálág sjálfur spurja sinna eigin spurninga þegar honum sýnist það henta, að maður tali nú ekki um nettan húmor endrum og eins, til að stytta annars löng réttarhöld.

En fjölmiðlar hér á landi eru altso ekki mikið að væflast um réttarsali, nema þá sjaldan það koma til óvenju stór mál sem allir eru orðnir hundleiðir á. Betra seint en aldrei þó ... 


Þvílík niðurlæging

Það mætti segja manni að dómari hefði ekki mikið álit á
málatilbúnaðinum og reyni að nota sérhvert tækifæri til að láta það í
ljósi. 
mbl.is Dómari stöðvaði skýrslutöku saksóknara í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráð til að hætta óstöðvandi hlátri

Sá einhver fréttina um Baugsmálið í fréttatíma stöðvar tvö í gær?

Mínar heimildir herma að öll hæðin hafi verið grenjandi úr hlátri meðan á henni stóð, og reyndar líklega flestir áhorfendur líka.

Hafi sorglegur dauði Túrkmenbashi ekki dugað til hlýtur þetta að verða til þess að íslenskir fjölmiðlar flytji aldrei framar fréttir af því merka ríki Túrkmenistan. Þetta byrjaði sumsé þegar Logi Bergmann Eiðsson reyndi að bera nafn nýja forsetans (ég þori varla að skrifa það) fram eðlilega og óþvingað.

Síðar í fréttinni segir hann "maðurinn"; að því er virðist til að skjóta sér undan frekari framburði með alvarlegum afleiðingum. En það dugði ekki til lengdar.

En nóg um það: Hér eru nokkur góð ráð um það hvernig má stöðva óviðráðanleg hlátursköst á tímum þegar þau eiga ekki við, eins og til dæmis í beinni útsendingu. :)

1) Haltu niðri í þér andanum þegar þú ert við það að skella upp úr.

2) Klíptu þig eða bíttu fast í tunguna (ekki þó of fast) eða eitthvað í þeim dúr sem kallar á sársauka eða önnur viðbrögð frá líkamanum.

3) Hóstaðu til að fela hlátur eða bros. Séu hlátur eða brosvipra að sleppa í gegn er um að gera að  bera höndina fyrir munninn til að fela "hóstann".

4) Tæmdu lungun alveg. Sé ekkert loft til staðar getur þú ekki haldið áfram að hlæja. Sannfróðir segja reyndar að þessi tækni virki best í kombói með hóstatækninni í lið 3. 

(Viðbót: Vegna misskilnings vil ég árétta að ekki er hætta á að lungun falli saman við tæmingu af þessum sökum. Það er held ég helber lygi að lunga dómsmálaráðherra hafi fallið saman þegar hann var að bæla niður óstjórnlegan hlátur.)

5) Hugsaðu um eitthvað sorglegt og niðurdrepandi, en fréttirnar eru á hverjum degi fullar af sorglegum atburðum sem ættu að duga til að drepa niður hláturinn. Einnig má notast við niðurbældar minningar dugi það ekki til. Þetta getur reyndar kallað fram önnur ekki síður óþægileg tilfinningaviðbrögð, en eftir sem áður ætti þetta að ná að stöðva hinn óstöðvandi hlátur. 

6) Séu aðstæður einkar óheppilegar, svosem á erfidrykkjum eða jarðarförum, geturðu með einbeitningu breytt hlátrinum í grát, en það er vel þekkt að sumt fólk sýnir viðbrögð sem minna um margt á hlátur áður en það brestur í grát (fyrrnefnd frétt á Stöð 2 var sem betur fer einungis um yfirheyrslur í Baugsmálinu fyrir hæstarétti).

7) Í mjög erfiðum aðstæðum má halda fyrir nefið með vísi- og þumalfingri og halda lófanum um leið fyrir munninn. Þar með geturðu hlegið innra með þér eins og þig lystir án þess að nærstaddir sjái hláturskastið. Að vísu kann að vera að þú skjálfir lítið eitt, og að lítilsháttar roði færist í kinnarnar, en það er hins vegar ekki ljóst að um ofsahlátur sé að ræða. 

Nú vonum við bara að þessar örstuttu leiðbeiningar verði íslenskum sjónvarpsfréttamönnum að gagni þanngi að furðufréttir og aðrar lýðræðislegar kosningar frá Túrkmenistan geti haldið áfram að verða okkur Íslendingum til gleði og ánægju í fréttatímum og á öðrum tímum. :)


Hvað gerir maður

... þegar það kemur upp villa á Moggablogginu manns svo að ekkert birtist eðlilega.

Jú, maður skrifar lítið blogg og athugar hvort málið lagast ekki þar með! 


Fyndið?

Jájá, alveg eins en samt ekki.

Held samt ekki að brandarinn um Sylvíu eigi að vera fyndinn, heldur eigi hann frekar að selja sem hann og gerir.

Sylvía má annars alveg kíkja til mín ef hún vill, en þá vil ég frekar að hún komi án lífvarðanna. Og nú vona ég bara henni þyki þetta nógu fallega sagt ... 


mbl.is Silvía Nótt herjar á bloggara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband