Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Meiri fóstbræður

Svo maður haldi nú áfram með Fóstbræður þá er hérna viðtal við nýbúann Filippus Braga Brohvny. Tekið er fram að ég afneita allri ábyrgð af hugrenningatengslum við mál úr dægurmálaumræðu nú-sins - einkum í síðari hluta viðtalsins. 


Fréttaskýring - tilurð Baugsmálsin

Vissulega eru mennirnir sekir. En mér finnst enn tilurð málsins vera alvarlegra umhugsunarefni en fjámálamisferli sem vissulega hefur átt sér stað.

Mér finnst það of einföld skýring að Davíð hafi fyrirskipað þetta - eða einhver honum við hlið.

Efsta lagið í gamla kolkrabbasamfélaginu var, sjáiði til, svona eins og lítið byggðalag úti á landi. Á stað þar sem allir þekkja alla, og allir hugsa, þannig séð, eins í meginatriðum um ákveðna hluti.

Svo þegar kvótinn einn góðan veðurdag er farinn, þá er það ekki bara fiskverkafólkið og sjómennirnir og sveitastjórnarmennirnir sem líður ekki vel með það og uggir um framtíð byggðalagsins. Því þetta er lítið og samheldið byggðalag sem má ekki við þessu.

Þannig að lækninum líður líka illa með, skólastjóranum líður líka illa með það, prestinum líður líka illa með það - og lögreglustjóranum líður líka illa með það. Og það er ekki aðalatriðið í því sambandi hvort hann er sonur ritstjórans.

Í öðrum fréttum er það helst að fimm sóttu um stöðu ríkissaksóknara, þeirra á meðal Jón H.B. Snorrason. 


mbl.is Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir í skilorðsbundið fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli maðurinn

Það er að mörgu að hyggja þegar kemur að því að kaupa íbúð fyrir sig og sína.

Ójá, það er komið mikið af gömlum fóstbræðrasketcum á netið.

Jón H.B. Snorrason sækir um já

... og Björn Bjarnason veitir. Skyldi verða ráðið fyrir eða eftir kosningar? Eða þá um svipað leyti og dómsniðurstaðan fæst í Baugsmálinu ...


mbl.is Fimm sóttu um embætti ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíminn og fortíðin í Tyrklandi

Erdogan Tyrklandsforsætisráðherra hefur mikið verið í fréttum undanfarið út af hasarnum í kringum forsetakjörið þar í landi. Í honum kristallast undirliggjandi ólga milli veraldlegra og trúarlegra stjórnmála. En nóg um það.

Ég held það hafi ekkert komið fram í fréttum hér á landi þegar það leið yfir hann á opinberum vettvangi í október síðastliðnum. Ástæðan var talin vera sykurfall og læknar töldu hann aðeins þurfa nokkurra daga hvíld. Þetta bar upp á Ramadan og sjálfsagt hafði hann fastað eins og fleiri. 

Ferðin á sjúkrahúsið var síðan töluverð uppákoma. Bílstjóranum varð það á að fara út úr bílnum með lyklana í skránni þegar hann var kominn á sjúkrahúsið, og öryggiskerfið læsti öllum dyrum. Forsætisráðherrann, sem enn var meðvitundarlaus, var því fastur inni í brynvörðum bílnum. Sem betur fer voru byggingarframkvæmdir nærri og fannst þar verklegur slaghamar sem var notaður til að brjóta skotheldar bílrúðurnar. Sem tók víst nærri tíu mínútur


Baráttudagur Tópasvarnarráðs

Líklega er ég í þeim hópi landsmanna, Guð má vita hvað hann er stór, sem sér lítið heilagt við verkalýðsgöngurnar 1. maí. Enda stemmning töluvert langt frá þeirri sem Laxness lýsir í sömu andránni og Ólafur Kárason fer með kvæðið maístjörnuna.Rétti upp hönd sem hefur rekist á verkamann sem reiddist yfir uppátækinu!

Sú var tíðin að þetta var dagur þeirra sem bjuggu við raunverulega fátækt og niðurlægingu. Í dag ber meira á aktivistum ýmiskonar, og sumum reyndar ærið misgáfulegum. Er verkalýðsgangan ekki orðin óttaleg afskræming og komin langt frá uppruna sínum? Við búum á tímum þar sem ekki þykir lengur athugavert að menn hæðist að forsetanum í Spaugstofunni, og flest má nota í markaðsskyni.

En sjálfsagt var það ekki athugað af Fítonsmönnum að gangan er orðið síðasta athvarf róttækra hugsjónamanna sem eiga það flestir sameiginlegt að hafa illan bifur á markaðsöflum hvers konar, og ekki síst auglýsingum.


Teljarablogg: Ritstjórinn á Moggablogginu

Það er merkilegt að skoða teljarann á Morgunblaðsefninu. Þar birtast Reykjavíkurbréf, leiðarar og staksteinarnir alræmdu. 

Það er ekki hægt að segja að þarna sé á ferðinni mikil lesning. Þegar þetta er skrifað hafa um 50 heimsótt síðuna í dag. Í ljósi þess hve mikið er látið með til dæmis Reykjavíkurbréfin í Morgunblaðinu hlýtur þetta að vera umhugsunarefni fyrir ritstjórn blaðsins - þjóðin virðist ekki bíða æsispennt eftir því að kynnast veröld Reykjavíkurbréfanna á hverjum sunnudegi. Staksteinarnir virðast heldur ekki keppa við skúbbspunabloggin og nafnleysingjablogg eins og Mengella.blogspot.com og cactusbuffsack.blog.is virðast fá töluvert meiri lesningu en staksteinarnir. Og Hannes Hólmsteinn virðist hafa drjúgum stærri lesendahóp.

Það fer líka fremur lítið fyrir kommentum þarna. Kannski væri tilvalið fyrir Styrmi að læra að tengja blogg við fréttir, eða biðja þá starfsmenn sem um það sjá að bæta Morgunblaðinu á listann yfir valin blogg (þó reyndar sé þetta efni ekki skrifað undir nafni). 

Og svo gæti líka verið tilvalið fyrir hann að gera gangskör að því að stækka bloggvinahópinn sinn. Væri til dæmis ekki tilvalið að adda Jónínu Ben. ...


Forsetinn og klækjabrögðin

Egill Helgason veltir því fyrir sér hvort menn trúi því í alvöru að Grísinn beiti klækjabrögðum til að koma á vinstristjórn. Ég held það sé engin spurning að Ólafur Ragnar væri meira en til í það, en ég stórefast líka um að það eigi að vera mikið áhyggjuefni fyrir Íhaldið. 

Það eru mörg fordæmi fyrir því að forsetar hafi orðið mjög áhrifamiklir um það hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, en þá var það jafnan við þær aðstæður að stjórnarmyndunarviðræður voru margra vikna, og jafnvel margra mánaða refskákir, þar sem saman fóru persónuleg úlfúð milli einstakra leiðtoga og gagnkvæm tortryggni, gerólík stefnumál og raunverulegur og djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur, sem og viðkvæmt innanhússástand í flokkunum. Þessar aðstæður munu ekki verða fyrir hendi eftir næstu kosningar í þeim mæli að það sambærilegt við ástandið á kaldastríðsárunum.

Altso, pólitíkusarnir gátu ekki ræðst við tæpitungulaust eins og þeir virðast geta gert í dag. Fyrir vikið varð forsetinn e.k. ríkissáttasemjari, sem gat séð stóru myndina betur og sett fram tillögur sem stjórnmálamennirnir sjálfur gátu ekki komið sér saman um án milligöngumanns. Og af því hann einn sá stóru myndina gat hann (mis)notað tækifærið til að vera með sitt eigið agenda, eins og til dæmis að tryggja að stuðningsmaður vestrænnar samvinnu á kaldastríðsárunum yrði utanríkisráðherra í vinstri stjórn.

Forsetinn hefur þetta vald ekki sjálfkrafa í krafti embættis síns, þó hann veiti einum flokki umboð til að fara fyrir viðræðum. Þetta er fyrst og fremst bundið við persónuleg samskipti hans við forystumenn í stjórnmálum, og háð því að þeir setji hann að eigin frumkvæði í þessa stöðu þegar þeir ná ekki saman án hans atbeina. Sem er mjög ólíklegt að gerist í þessum kosningum og hefur reyndar ekki verið raunin í íslenskum stjórnmálum í marga áratugi.

Þannig að Óli grís væri áreiðanlega vitlaus í að komast í þessa stöðu að geta beitt klækjabrögðum. Ég hef bara enga trú á því að hinir pólitíkusarnir telji sig þurfa á honum og þeim að halda.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband