1.5.2007 | 14:11
Teljarablogg: Ritstjórinn á Moggablogginu
Það er merkilegt að skoða teljarann á Morgunblaðsefninu. Þar birtast Reykjavíkurbréf, leiðarar og staksteinarnir alræmdu.
Það er ekki hægt að segja að þarna sé á ferðinni mikil lesning. Þegar þetta er skrifað hafa um 50 heimsótt síðuna í dag. Í ljósi þess hve mikið er látið með til dæmis Reykjavíkurbréfin í Morgunblaðinu hlýtur þetta að vera umhugsunarefni fyrir ritstjórn blaðsins - þjóðin virðist ekki bíða æsispennt eftir því að kynnast veröld Reykjavíkurbréfanna á hverjum sunnudegi. Staksteinarnir virðast heldur ekki keppa við skúbbspunabloggin og nafnleysingjablogg eins og Mengella.blogspot.com og cactusbuffsack.blog.is virðast fá töluvert meiri lesningu en staksteinarnir. Og Hannes Hólmsteinn virðist hafa drjúgum stærri lesendahóp.
Það fer líka fremur lítið fyrir kommentum þarna. Kannski væri tilvalið fyrir Styrmi að læra að tengja blogg við fréttir, eða biðja þá starfsmenn sem um það sjá að bæta Morgunblaðinu á listann yfir valin blogg (þó reyndar sé þetta efni ekki skrifað undir nafni).
Og svo gæti líka verið tilvalið fyrir hann að gera gangskör að því að stækka bloggvinahópinn sinn. Væri til dæmis ekki tilvalið að adda Jónínu Ben. ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 12:31
Forsetinn og klækjabrögðin
Egill Helgason veltir því fyrir sér hvort menn trúi því í alvöru að Grísinn beiti klækjabrögðum til að koma á vinstristjórn. Ég held það sé engin spurning að Ólafur Ragnar væri meira en til í það, en ég stórefast líka um að það eigi að vera mikið áhyggjuefni fyrir Íhaldið.
Það eru mörg fordæmi fyrir því að forsetar hafi orðið mjög áhrifamiklir um það hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, en þá var það jafnan við þær aðstæður að stjórnarmyndunarviðræður voru margra vikna, og jafnvel margra mánaða refskákir, þar sem saman fóru persónuleg úlfúð milli einstakra leiðtoga og gagnkvæm tortryggni, gerólík stefnumál og raunverulegur og djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur, sem og viðkvæmt innanhússástand í flokkunum. Þessar aðstæður munu ekki verða fyrir hendi eftir næstu kosningar í þeim mæli að það sambærilegt við ástandið á kaldastríðsárunum.
Altso, pólitíkusarnir gátu ekki ræðst við tæpitungulaust eins og þeir virðast geta gert í dag. Fyrir vikið varð forsetinn e.k. ríkissáttasemjari, sem gat séð stóru myndina betur og sett fram tillögur sem stjórnmálamennirnir sjálfur gátu ekki komið sér saman um án milligöngumanns. Og af því hann einn sá stóru myndina gat hann (mis)notað tækifærið til að vera með sitt eigið agenda, eins og til dæmis að tryggja að stuðningsmaður vestrænnar samvinnu á kaldastríðsárunum yrði utanríkisráðherra í vinstri stjórn.
Forsetinn hefur þetta vald ekki sjálfkrafa í krafti embættis síns, þó hann veiti einum flokki umboð til að fara fyrir viðræðum. Þetta er fyrst og fremst bundið við persónuleg samskipti hans við forystumenn í stjórnmálum, og háð því að þeir setji hann að eigin frumkvæði í þessa stöðu þegar þeir ná ekki saman án hans atbeina. Sem er mjög ólíklegt að gerist í þessum kosningum og hefur reyndar ekki verið raunin í íslenskum stjórnmálum í marga áratugi.
Þannig að Óli grís væri áreiðanlega vitlaus í að komast í þessa stöðu að geta beitt klækjabrögðum. Ég hef bara enga trú á því að hinir pólitíkusarnir telji sig þurfa á honum og þeim að halda.
30.4.2007 | 15:31
Orð dagsins
30.4.2007 | 13:14
Auglýsing dagsins
30.4.2007 | 13:07
Andlit nýrrar kynslóðar hættir
Ég man ennþá eftir því þegar nýr banki var stofnaður, og Bjarni Ármannsson varð bankastjóri hans. Gerólíkur því sem menn höfðu áður þekkt, ungur en eldklár, með gleraugu og hárið sleikt aftur. Varð viðfangsefni í fjöldamörgum tímaritum og var með sitt skrifborð inni í opna vinnurýminu innan um hina starfsmennina.
Mér skilst reyndar að það fyrirkomulag hafi illa staðist tímans tönn, en ekki hafi verið vakin athygli á því fjölmiðlum þegar skrifstofa bankastjórans hvarf af gólfinu.
Seinna varð Fjárfestingarbankinn Íslandsbanki-FBA, seinna bara Íslandsbanki og síðar Glitnir, en alltaf var Bjarni þarna. Hét hann ekki Valur sem var á tímabili bankastjóri með honum?
Það er ekki eins og þessi tími hafi verið átakalaus og líklega má rekja margt sem síðar gerðist í stjórnmálalífinu til þess þegar Orcahópurinn svokallaði steig fram á sjónarsviðið. Var þetta kannski síðbúin yfirtaka úr þeirri átt?
En nú er Bjarni trúlega á útleið, enda er maður búinn að heyra þrjá mögulega arftaka nefnda síðustu daga á bloggum og blöðum. Ég myndi halda það væri nokkur missir. Fyrir mér hefur hann alltaf haft meiri ímynd en hinir bankastjórarnir, þó ungir séu, og sjálfsagt finnst það fleirum. Í það minnsta finnast mér þetta merkilegri fréttir af mannabreytingum í atvinnulífinu en flestar aðrar síðustu árin. Í svipinn man ég ekki einu sinni hvað hann hét, þessi sem Bjöggi dömpaði úr Straumi-Burðarás.
Ég geri mér heldur ekki vel grein fyrir því hvað þessar væringar allar snúast og hef stundum á tilfinningunni að það sé lítið merkilegra en hver annar Heimdallarslagur, skipti litlu fyrir land og þjóð en sé af einhverjum ástæðum, sem eru heimatilbúin hernaðarleyndarmál fyrir útvalda, mjög stórt viðfangsefni í hugum þeirra sem taka þátt.
Mun Glitnir skipta oftar um nafn? Eða verða einhverjar róttækar breytingar á e-i fjárfestingarstefnu sem ég veit svosem ekkert um hvað snýst. Ég held ekki. En sjálfsagt þykir Jóni Ásgeiri gaman að eiga loksins banka, eftir allt sem á undan er gengið. Mikill sigur fyrir hann og Co. og ósigur fyrir hina. Davíð er sjálfsagt með einhverja skoðun á þessu uppi í Seðló sem honum mun ganga illa að þegja yfir.
Og af hverju hættir Bjarni. Tekur betri maður við, eða snýst þetta um að einhvers staðar í ferlinu hafi hann ekki stigið nógu gætilega til jarðar nærri einhverjum plottaranum? Sagt eitthvað vanhugsað og nú geti nýi eigandinn ekki treyst honum. Eða verður kannski ráðinn einhver sem kjölfestufjárfestirinn treystir til að gæta sinna hagsmuna betur en hins almenna hluthafa? En það er víst eitthvað í þá veruna sem allur þessi barningur snýst um.
Ekki á ég hlut í bankanum eða viðskipti þar. Löngu hættur að nenna að spá í þessu. En Bjarni er að hætta og það eru fréttir af því maður er orðinn svo vanur andlitinu á honum.
30.4.2007 | 12:26
Fæst slökkviliðið við mengunarvarnir?
Það er mjög merkilegt að slökkviliðið sé að óska eftir breytingum á lögum, af ástæðum sem geta varla talist falla beint undir hlutverk slökkviliðsins, altso upp á mengunarvarnir að gera. Ekki var hætta á útbreiðslu elds og mannvirki og gróður voru ekki í hættu, það virðist skýrt af fréttinni.
Vill nú slökkviliðið láta breyta lögum um sinuelda, og bera fyrir sig mengunarástæðum. Ekki öryggisástæðum, heldur mengunarástæðum, svona eins og það sé hlutverk slökkviliðsins hindra mengun, frekar en að slökkva elda. Hér er umfjöllunin af heimasíðu slökkviliðsins.
Næst á kannski að skipta sér af bruna í bílvélum, sem óneitanlega skapar hvimleiða mengun líka þó hann sé í fæstum tilvikum hættulegur.
Menn geta haft ýmsar skoðanir á sinubrunum, en það virkar mjög ankannalegt að slökkviliðið sé að óska eftir lagabreytingum á þessum forsendum, korteri fyrir kosningar.
Sinueldar kveiktir með leyfi sýslumanns; kallað eftir lagabreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.4.2007 | 20:03
Fundnir
Það gleður mig að geta hér með tilkynnt þeim sem ég hafði virkjað til leitar á bíllyklunum að bílaleigubílnum sem ég lagði ólölega fyrir framan Þjóðleikhúsið í gærkvöld, að þeir eru fundnir.
Þeir fundust á 2. hæð á Barnum sem er mjög merkilegt því ég man ég fór aldrei upp á aðra hæð á honum.
Mamma Sindra er ekki kominn aftur með balann sinn, sem hún þurfti að nota, en ég er á leiðinni með hann.
27.4.2007 | 19:13
Bónus?
Það hringdi út, en eftir smástund hringdi hann í mig til baka. "Ég rétt missti af símanum. En var það eitthvað sérstakt." Ég var að spá í dinner. "Jáá, kannski á eftir. En, öh, það stendur eiginlega svolítið illa á núna. Öhm, ég er hérna í smá heimsókn, skilurðu."
Það er ekkert við því að segja. Stundum hringir maður bara á óheppilegum tíma, þó reyndar sjaldan þegar maður hringir á kristilegum tíma. Skítur gerist og allt það. En það er þetta með að hringja til baka. Af hverju hendir það einstaka sinnum að menn hringja til baka þegar hringt er á þá á óheppilegum tíma.
Það er sumsé það sem ég var að velta fyrir mér meðan að ég verslaði í matinn rétt áðan!
27.4.2007 | 17:56
Tileinkað Framsóknaflokknum
27.4.2007 | 15:49
Öll skúbbin í dag
Annars er baggalútur með öll heitustu skúbbin nú um stundir. Þar má til að mynda lesa að spunameistari Framsóknarflokksins hafi verið rekinn, líklega út af þessu Landsvirkjunarklúðri.
Þá upplýsir hann, sem annars hefur verið þaggað, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki skilað inn framboðslistum áður en fresturinn rann út. Það er auðvitað nokkuð stór frétt - en það hlaut að vera ástæða fyrir því að Hannes var skyndilega farinn að leika lausum hala fyrir þessar kosningar, frekar en að senda hann í felur eins og oftast áður.
Annars konar ég
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 567
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar