Leita í fréttum mbl.is

Mennirnir kringum Halldór

"Það er ótrúlegt hvað mennirnir sem röðuðu sér í kringum Halldór Ásgrímsson poppa upp aftur og aftur."

Ég hafði ekki hugsað út í þetta í tengslum við stjórnarformannsskiptin í Landsvirkjun. En þetta er ekki verri ábending en hver önnur. Fyrir mér er þetta mál ennþá hálfgerð ráðgáta: Hvað gekk forystu framsóknar eiginlega til?

Páll Magnússon virðist ekki í fljótu bragði afgerandi yfirburðamaður í starfið frekar en fráfarandinn.

Það virðist engin raunveruleg ástæða fyrir því að dömpa fráfarandanum á þessum tíma. (Skyldi Pétri líka þykja tólf ár ágæt fyrir Framsóknarflokkinn?) Það virðist ærið langsótt að kenna Jóhannesi einum um óvinsældir Landsvirkjunar.

Augljóslega hefur það ekki verið ætlunin að tengja Framsóknarflokkinn við Landsvirkjun, eins umdeild og hún er þessa dagana,  korteri fyrir kosningar, sem var nú samt það sem þeir gerðu de facto.

Augljóslega hefur það ekki verið ætlunin að minna kjósendur á það hvernig helmingaskiptafyrirkomulagið fúnkerar - sem var nú samt það sem þeir gerðu de facto.

Augljóslega hefur það ekki verið ætlunin að tengja Jón Sigurðsson, nýjan formann, við átök og illindi innan flokksins - sem var nú samt það sem þeir gerðu de facto.

Augljóslega hefur það ekki verið ætlunin að ágreiningur og gömul sár innan flokksins yrðu borin á torg - sem var nú samt það sem þeir gerðu de facto.  

Augljóslega hefur það ekki verið ætlunin að pirra Samstarfsíhaldið - sem ég hef ekki mikla trú á því að kunni þeim miklar þakkir fyrir að fá helmingaskiptasamkomulagið í allar fréttir núna. 

Svo ég er litlu nær. Kannski óttast þeir að komast ekki í ríkisstjórn og sá þetta sem síðasta tækifærið til að gefa Páli eitthvað sem hann þykir hafa átt inni. En þegar maður hugsar til þess að Hjálmar Árnason er að hætta, án þess að fá sendiherrastól, þrátt fyrir að hafa alla tíð stutt Halldór dyggilega virðist það heldur ekki ganga upp. Aldrei fékk Hjálmar þó ráðherrastól og ennfremur hefði verið mjög góð hugmynd uppá ímynd Framsóknarflokksins og Landsvirkjunar að setja hann þar - enda kunnur áhugamaður um umhverfisvæna vetnisorku.  

Einhver þyrfti eiginlega að grafa upp hvað Jóhannes á að hafa unnið sér til óhelgi - því það hlýtur að vera málið. Greiddi hann kannski ekki sína Framsóknartíund í kosningasjóðinn?

Ekki það að mér sé ekki að mestu leyti sama. En það er óneitanlega gaman að því að mennirnir sem röðuðu sér í kringum Halldór sé enn eina ferðina að poppa upp í kringum ævintýralega mislukkað PR múv. 


Columbine, Virginia Tech og hinar

Það hafa fleiri skólaskotárásir átt sér stað í Bandaríkjunum á milli þeirra þekktustu, í Columbine í apríl 1999 og nú þeirra í Virgina Tech. Hér er stuttur listi í krónólógískri röð:

20. apríl 1999. Columbine. Þrettán létust, kennari og tólf nemendur. Árásarmennirnir, sautján og átján ára, fyrirfóru sér. Auk riffla og hlaupsagaðra haglabyssna reyndu þeir að notast við heimatilbúnar sprengjur. Á myndbandsupptökum sem þeir tóku upp lýstu þeir því yfir að þeir vildu myrða 250 manns.

20. maí 1999. Heritage. Sex særðust en enginn lést. Árásarmaðurinn var fimmtán ára og guggnaði á að fyrirfara sér, en hefur reynt nokkrar sjálfsvígstilraunir í fangelsi. 

5. mars 2001. Santana. Tveir létust og þrettán særðust. Árásarmaðurinn var fimmtán ára.

16. janúar 2002. Apalachia. Þrír létust og þrír særðust. Árásarmaðurinn var á fimmtugsaldri en hafði nýverið flosnað upp úr námi í skólanum. Hann var yfirbugaður af nemendum sem sóttu skotvopn í bifreiðar sínar.

24. september 2003. Rocori. Tveir létust. Árásarmaðurinn var 15 ára, og ætlaði aðeins að myrða einn bekkjarfélaga sinn. 

21. mars 2005. Red Lake. Sjö létust og sjö særðust, og þar að auki hafði árásarmaðurinn, sem var sextán ára, drepið tvo áður en hann kom í skólann. Hann fyrirfór sér.

8. nóvember 2005. Campbell. Árásarmaðurinn, 15 ára, skaut á þrjá starfsmenn skólans. Einn lést og hinir tveir særðust. 

2. október 2006. Amish. Árásarmaðurinn, sem var 32 ára, tók fimm stúlkur á aldrinu 7-12 ára sem gísla og myrti síðan. Hann fyrirfór sér.

29. september 2006. Weston. Fimmtán ára árásarmaður kom í skólann með skammbyssu og haglabyssu. Kennari og samnemendur náðu haglabyssunni af honum óvopnaðir. Þvínæst ógnaði hann skólastjóranum með skammbyssu, en skólastjórinn reyndi að yfirbuga hann og lést síðar af sárum sínum. 

16. apríl 2007. Virgina Tech. 32 létust og 29 særðust.

Þjóðareinkenni?

 


Byssur á Íslandi og í BNA

Ég sé að gamall kunningi, Friðbjörn Orri, tjáir sig um skotvopnaeign á Íslandi og í Bandaríkjunum í kjölfar fjöldamorðanna í Virginia Tech; já og lýsir sig reyndar líka andvígan því að lög um skotvopnaeign séu hert í kjölfar slíkra voðaverka.

En hvaða vopn notaði Cho Seung-hui? Það voru 9mm Glock 19 og Walther P22. Báðar eru hálfsjálfvirkar skammbyssur, Glockinn trúlega 15 skota og Waltherinn tíu skot. Hérlendis má hvorki eiga skammbyssur né hálfsjálfvirk vopn. Sjá Vopnalögin.

Þessar byssur keypti ódæðismaðurinn með löglegum hætti, hvora í sínu lagi, aðra 9. febrúar síðastliðinn og hina 13. mars, skv. grein Wikipedia

Cho virðist af fjölmiðlum hafa verið félagslega heftur einfari, sem hefði ef til vill ekki geta orðið sér út um vopn með ólöglegum hætti. Hann bjó á heimavist og það hefði verið vandkvæðum bundið að smygla þangað stærra vopni en skammbyssu. Hann gat valsað vopnaður um skólasvæðið í tvær klukkustundir frá fyrstu morðunum þar til hann hófst handa í verkfræðiálmunni þar sem fjöldamorðin áttu sér stað. 

Það er í rauninni algerlega fráleitt að halda því fram að bandarísk vopnalöggjöf hafi engu máli skipt. Hann hefði aldrei náð að myrða 32 einstaklinga hefði íslensk skotvopnalöggjöf gilt í Bandaríkjunum, enda gæti geðbilaður maður aldrei getað orðið sér út um jafn öflug sem og handhæg vopn með jafnlítilli fyrirhöfn hér á landi.


Skólinn í BNA ætti að skammast sín

Bloggarinn sem hefur viðbjóð á Amnesty hefur eftirfarandi um skólann að segja þar sem fjöldamorðin áttu sér stað:

"T.d. bannaði þessi tiltekni skóli nemendum sínum og kennurum að hafa á sér vopn til sjálfsvarnar, þrátt fyrir að lög ríkisins heimiluðu það. Brot varðar brottvísun úr skóla.

Það varð auðvitað til þess að engin gat varist morðingjanum, engin gat nýtt sér sinn grundvallarrétt til sjálfsvarnar.

Það segir sig sjálft að ef skólinn hefði ekki haft þessar reglur, sem voru að vísu ætlaðar voru til þess að fólk héldi sig öruggt, og menn nýtt sér sinn rétt, hefðu ekki nærri því jafnmargið fallið og aftökur algerlega ómögulegar."

Þá vitum við það: Við þurfum að gera vopnaburð tiltölulega almennan, til dæmis meðal nemenda í skólum, til að koma í veg fyrir morð og aftökur á almannafæri.

Kommentinu hans lýkur reyndar ekki þarna, heldur klykkir hann út með þessum gullmola:

"Ástæðan fyrir þessum fjöldamorðum er einfaldlega sú að fólk er algerlega berskjaldað og óvarið og því auðveld bráð fyrir glæpamenn í þessum hugleiðingum."

 


Webbinn um Samfylkingun

Illkvittnin í skrifum Webbans um landsfund Samfylkingarinnar er yndisleg sem slík:

"Kosningarétt í kjörinu höfðu því 623,6 sem er vonandi óhætt að námunda í 624 þótt Jón Baldvin hafi verið á fundinum."

Ó, að einhver gæti skrifað svona um Sjálfstæðisflokkinn endrum og eins. Múrinn er hættur að standa sig í stykkinu fyrir löngu síðan. Ég trúi því til dæmis varla að Ármann hafi skrifað þetta, taldi það víst að þetta væri einhver af menntaskólakrökkum Múrsins. 


Nýjustu fréttir af skoðanaleysi Samfylkingarinnar

... eru komnar úr merkilegri atkvæðagreiðslu sem haldin var á landsfundi þar nýverið. Harðar umræður urðu á fundinum um ályktun þess efnis að hefja á ný viðræður við Bandaríkin um að endurskoða viðaukana í varnarsamkomulaginu.

Tillagan var naumlega felld. Atkvæði féllu þannig að 81 greiddi atkvæði á móti nýjum viðræðum, 69 greiddu atkvæði með en tæplega 1200 manns sátu hjá, enda málið ekki fjölmiðlavænt og vel fallið til þess að hafa skoðun á. Þá eru einungis taldir skráðir fulltrúar, en ekki almennir gestir sem höfðu ekki kosningarétt.  


Tekið upp í skuldir?

Er það ósennilegt að Blaðið hafi hreinlega verið tekið upp í prentskuld? Ég fyrir mitt leyti yrði ekki hissa á því. Sjálfsagt var það líka raunin þegar helmingurinn var "keyptur" á sínum tíma. 

Spurningin er hvort að dreifingin á Blaðinu lagist þá í kjölfarið? Reyndar væri ekki verra ef Blaðið yrði lagt niður, enda eru sölumennskan þarna terrorismi fyrir alla aðra sem eru að garfa í útgáfu fríblaða.

Ef til vill væri það gáfulegt módel fyrir Árvakur að gera Blaðið að litla-mogga. Einhverjar síður blaðanna yrðu samnýttar, og ef til vill reynt að búa þannig um að þeir sem keyptu auglýsingar fengju þær birtar í báðum blöðum. Blaðið yrði síðan fyrst og fremst borið út til þeirra sem ekki kaupa Moggann, en með miklu minna og ómerkilegra efni. Dreifikerfi í hvert hús á landinu er í það minnsta ekki svo vitlaus hugmynd.  


mbl.is Árvakur eignast allt hlutafé í Ári og degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með viðbjóð á fleiru

Maðurinn sem er tvífari Tarantino og hefur viðbjóð á Amnesty þykir líka viðbjóðsleg greinin sem margfrægur bandarískur prófessor skrifaði um Ísland; tekur hann á orðinu og hefur margt við greinina að athuga. 

Svo ég kvóti í Pétur: "Grundvallaratriðið er að Ísland er frjálst lýðræðisríki og því þarf ekki að frelsa þegna þess." Þarf nokkuð meira um málið að segja?


Vinaflesti bloggarinn með 327 bloggvini!

Jú, það er Stebbifr. En fjöldi bloggvinanna hans er 327 (11. apríl 2007 kl. 13:25). Hann er því vinaflesti* bloggarinn.

Fast á hæla hans, eftir því sem ég kemst næst, er Sigmar Guðmundsson með 213 bloggvini, en það má vel vera að einhver geti leiðrétt það. Fljótlegasta leiðin til að telja bloggvini er að peista þá inn í Excel. 

Ég held ég kvóti bara fyrirfram beint í StebbaPáls: "Megi moggabloggið kafna í faðmlögum bloggvina." 

*Vinaflesti er mitt nýyrði þar sem vinsælastur á ekki við. Vinamargur er gott lýsingarorð en því miður bara til í frumstigi, þangað til nú. Gott miðstig, einhver?


Anarkistarnir tíu í VG?

Gunnar Smári mun víst eitthvað hafa rætt um væntanlega nýliða VG í Silfrinu um daginn og taldi Geir og co. ekki átta sig á því að þeir yrðu etv. erfiðari en Ögmundur og Steingrímur. Egill endurtekur þetta í dag

"Geir Haarde les stöðuna líklega svo að hægt sé að fara í ríkisstjórn með Steingrími og Ögmundi þrátt fyrir meinta róttæka vinstristefnu þeirra. Hann telur að þeir hafi góð tök á flokki sínum. Það þarf ekki að vera rétt. Ef marka má skoðanakannanir mæta Steingrímur og Ögmundur á þing eftir kosningar með tíu nýgræðinga. Þetta er fólk sem brennur í andanum, langar að bjarga heiminum, er vant alls kyns hugsjónastarfi úti í bæ og vill helst ekki þurfa að gera málamiðlanir."

Það væri, úr því farið er að margtyggja á þessu, ekki úr vegi að skoða hverjir þessir hugsanlegu grasrótarrebellar Egils, sem eiga að eyðileggja þetta stjórnarmynstur, eru. Líklegir kandidatar væru:

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Árni Þór Sigurðarson
Paul F. Nikolov
Álfheiður Ingadóttir
Auður Lilja Erlingsdóttir
Atli Gíslason
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Björn Valur Gíslason
Alma Lísa Jóhannsdóttir
Gestur Svavarsson

Ég fyrir mitt leyti get ekki séð á þessum nýliðalista að fótur sé fyrir vangaveltum Egils um þetta atriði, heldur þvert á móti ef eitthvað er.

Það má nú segja sittlítið af hverju um Vinstri græna og þeirra stefnumál, en það er nú þrátt fyrir það held ég ástæðulaust að ganga út frá því sem gefnu að óathuguðu máli að hver einasti maður sem þar rekur inn nefnið sé með öllu ósamstarfshæfur vitleysingur sé hann ekki búinn að verða sér út um reynslu af "alvöru pólitík", helst með áratuga þingsetu að baki. ...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband